Hann skal heita Jóhannes Kári Ágústsson

Hér er smá pistill sem frúin mín ritaði um nöfnin.

Jóhannes:

Móðurafi Gústa hét Jóhannes Óli og ákváðum við að nota Jóhannesarnafnið. Okkur finnst það fallegt nafn og ekki skemmir fyrir að þetta nafn er biblíunafn. Jóhannes reyndist móður Gústa og þeim systkinunum Gústa og Bryndísi algjör klettur á mjög erfiðum tímum og var mikill hugsjóna- og framkvæmdamaður. Hann naut virðingar samferðafólks og starfaði sem kennari og skólastjóri. Hann var einn af stofnendum Sólborgar og barðist ötullega fyrir réttindum fatlaðs fólks. Einnig er merkilegt, þar sem Jóhannes Kári fæddist þann 16. janúar, að Jóhannes Óli andaðist þann 17. janúar 1981.

Kári:
Ég vona að ég fari rétt með þessa sögu en einhvern veginn svona hljómar hún. Pabbi minn, Guðmundur, ólst upp í stórum systkinahópi og var hann orðinn 6 ára þegar hann var skírður ásamt alla vega einni systur hans (veit ekki hvort fleiri systkini voru skírð á sama tíma). En í sveitinni í gamla daga voru hlutirnir öðruvísi en við megum venjast í dag. Pabbi bar gælunafn allt fram að skírn en var svo nefndur Guðmundur. Hann var ekki sáttur við það nafn því hann vildi svo mikið heita Kári, í höfuðið á manni sem hafði komið að vinna í dalnum og var honum einstaklega góður. Mamma sagði mér þessa sögu og ég ákvað strax að þetta nafn vildi ég nota.

Svo er líka svolítið gaman að segja frá því að þegar Rebekka Rós var orðin nógu þroskuð til að gefa böngsunum og dúkkunum sínum nafn þá var Kári fyrsta nafnið sem hún notaði á bangsa sem hún á og er uppáhaldsbangsinn hennar enn í dag. Kári fer með henni í allar gistiheimsóknir og má ekki gleymast heima þegar við förum í ferðalög.17379_1254626739566_1646515298_592760_4241853_n

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband