23.3.2008 | 08:22
Gleðilega páska...
Þá er að ráðast á páskaegg... ...eh, já... það er víst búið að berja á því, enda ekki mikið eftir af þvi
Rebekka er langt komin með sitt og við, ábyrggðarfullu foreldrarnir að reyna að telja henni trú um að það sé nú gott að eiga eitthvað seinna í dag svo það hverfi nú ekki alveg í einu. Ég held að það þurfi að bursta tennur nokkrum sinnum í dag
Hún var svo spennt í gærkvöldi að hún ætlaði aldrei að sofna, langaði svo í páskaeggið sitt
En nú, rétt í þessu ákvað hún að geyma restina... hjúkk!!!!! Spennusagan á enda en ég er samt með aðra áhugaverða sögu...
Jæja, það var ekki sjón að sjá mig eftir Samhjálparsamkomuna á föstudaginn. Ég sat undir lýsingum Heiðars, forstöðumanns Samhjálpar er hann flutti ræðu föstudagsins langa um þjáningar Jesú út frá læknisfræðilegum sjónarmiðum og því blóðugri sem þær urðu, því meira varð ég fölur Svo kom að því sem ég óttaðist... ,,Við skulum fá lofgjörðarhópinn upp" og svo að sjálfsögðu þurfti Halldór (lofgjörðarleiðtoginn) að biðja mig að syngja ,,Að krossinum". OK. hugsaði ég, þetta verður í lagi, ég hlýt að standa þetta af mér... en, nei. Lagið var ekki langt komið og ég varð bara veikari og veikari og hélt að að lokum að ég ætla að hrynja niður, en hafði vit á því að hætta að syngja og setjast niður. En virtist ekki duga til og varð að fara afsíðis. Mér var sagt eftir á að ég hefði verið hvítari en hvíta skyrtan sem ég var í. Ég fór svo heim og lagði mig og hresstist við og fór svo með Önnu og Rebekku til tengdó í hangikjöt um kvöldið.
Það sem gerist þarna er mér óskiljanlegt. Á flestum skyndihjálparnámskeiðum og öðru slíku sem viðkemur slíkum lýsingum, þá verð ég bara veikur, fæ aðsvif og verð að fara afsíðis. Veit ekki hvað gerist.
Eini sinni, heima hjá honum Pétri Reynis vini mínum, var hann að sýna okkur nokkrum úr hjúkrunarfræðibókunum sínum sem hann var að læra. Ég man að ég var orðinn eitthvað skrítinn en vissi ekki hvað var að gerast og hélt bara áfram að fylgjast með af forvitni... ...þegar Pétur nær í aðra bók um réttarrannsóknir. Þar sýndi hann okkur hitt og þetta, en þegar ég sá myndina af alvöru líki með skotgat í enninu... ...þá man ég eins og gerst hafi í gær, að ég gekk fyrir hornið á ganginum og man ekki meir fyrr en ég vaknaði á gólfinu með Pétur stumrandi yfir mér spyrjandi ,,Gústi, Gústi, er ekki allt í lagi" Ég man að ég vaknaði og var alveg undrandi og velti því fyrir mér af hverju ég hefði sofnað á gólfinu heima hjá Pétri...
Svo er bara að hvíða fyrir lýsingum Halldórs í Mozaík í dag. Ég geri ráð fyrir að ræðan hans verði svipuð og ræðan hans Heiðars. Hugsa að Halldór fyrirgefi mér ef ég þarf að skreppa afsíðis á meðan hann talar.
En ég er samt að öðru leyti spenntur fyrir samkomunni í dag, sem verður stofnsamkoma ,,Mozaík Hvítasunnukirkjunnar" Hún er klukkan tvö í dag fyrir ykkur sem eruð að lesa þetta.
Athugasemdir
Eitthvað rámar mig í þessa sögu - það eru eflaust yfir 20 ár síðan hún gerðist. En ég þekki marga sem eins er ástatt með, þannig að þetta er ekkert alvarlegt. Sjálfur virðist ég þola ómælt magn af viðbjóði. Get hinsvegar ekki höndlað óperusöng.
Ingvar Valgeirsson, 28.3.2008 kl. 13:18
Ég virðist ekki alveg eins viðkvæm gagnvart blóði og slysum. Ég er samt ekki viss hvort ég gæti verið skurðlæknir eða hjúkka....
Bryndís Böðvarsdóttir, 5.4.2008 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.