17.9.2008 | 22:24
Sveitasæla 5
Hér er blíða, þ.e. ef við sleppum að ræða um veðrið, semsagt sól í hjarta. Nú er hafin og hálfnuð síðasta vikan mín hér í þessu sumarfríi og vinna á mánudag... hvað er ég að rifja það upp, margir dagar þangað til...
Ég skrapp á mánudaginn og sótti hana Rebekku mína til að létta aðeins álaginu af Önnu minni svo Rebekka er búin að vera hér með okkur að hjálpa til. Ekki veitir af svo orkumiklum starfskrafti. Hún er búin að hjálpa mér að mála glerlista, taka til í dúkkuhúsinu hennar ofl. Svo er bara svo líflegt að hafa hana hér. Hún eiginlega stjórnar hér með harðri hendi og við bara hlíðum.
Svo var hér í gærkveldi nokkuð líflegt ef litið er til veðurs. Þegar ég kom fram, eftir að hafa svæft Rebekku, var tengdó búinn að fara út og festa eitt og annað niður hér á lóðinni, enda eins gott, húsið nötraði og skalf og mér leist ekki mjög mikið á blikurnar, en reyndi samt að dreifa huganum við málun á dyrakörmum hér inni, sudoku ofl. Svo ætlaði ég ekki að geta sofnað fyrir látumnum og kannski stressi, en þetta var nú held ég hálfgerð móðusýki í mér. Húsi er nokkuð öruggt. Allavega stóð það af sér stærri hvelli í fyrravetur, t.d. þegar tengdó vaknaði standandi eina nóttina sökum vinda sem skullu á húsinu.
Í morgun þegar við Rebekka vöknuðum og fórum út, þá höfðu búkkar, nokkuð þungir, fokið eina fimm metra fram af pallinum og plaströr, sem við héldum að væri í skjóli, hafði fokið til.
Annars skruppum við Rebekka í dag, á milli regnskúra, til að finna nokkur ber. Það var ekki mikið upp úr því að hafa þar sem allt var svo blautt, hendur kaldar og rollur, sem gleymdist að smala um daginn, búnar að narta í lingið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.